Pétur Konn ehf stofnað 23. apríl 1997

 

Saga fyrirtækisins.

 Vorið 1985 fór Ægir Már Elisson í handfæraróður með frænda sínum Pétri Högnasyni á litlu trilluhorni. Það var komið fram yfir hádegi þegar þeir lögðu af stað og héldu rétt út fyrir Grundarfjörðinn út að Mávahnúksboða.  Þar lentu þeir frændur í góðu fiskiríi og komu í land um kvöldmatarleytið með fullfermi sem reyndist vera um 1.100 kg . Það má segja að þessi róður hafi verið kveikjan að útgerð Ægis og Guðjóns bróður hans, því Ægir fékk uppúr þessu mikinn áhuga á því að kaupa trillu. Þar eð Gaui bróðir var með "reynslu"( hann hafði róið á unglingsárum með afa þeirra Pétri Konráðssyni og eldri bróður þeirra Ómari) lá beinast við að fá hann með í dæmið. 

 Snemma árs 1986 keyptu þeir bræður lítið og gamalt trilluhorn frá Grindavík sem hét Andri GK.  Hlaut hann nafnið Már og einkennisstafina SH 71 (Vegna þess að til voru stafir frá því er afinn Pétur Konn og pabbinn Elis Guðjónsson (Elli) keyptu bát frá Akranesi sem hét Már AK 71 Seinna Svala SH 178). Fyrsta sumarið fengust á hann á handfærum um 40 tonn og var hann eingöngu gerður út á sumrin til að byrja með. Strax fyrsta veturinn var hann tekinn í mikla endurbyggingu af  Ella, sem er mjög laghentur maður og sýndi það og sannaði í þetta sinn sem áður og smíðaði á hann nýtt stýrishús og hvalbak, auk þess sem hann byggði upp lunninguna því hann var mjög lár á borðið. Varð Már nú allur annar og betri bátur. ( Ljósmynd )

 Helst nú þetta útgerðarmynstur til ársins 1989. Grásleppa á vorin, handfæri fram eftir sumri, eitthvað á haukalóð  seinnipart sumars og bátnum lagt á vetrum og mannskapurinn réði sig á togara (Runólf SH 135) þar til aftur voraði. Þá voru trillukarlar svona hálfgerðir vorboðar.  Þegar hér er komið sögu, eða árið 1989 er þá bræður farið að langa til að gera þetta að heils árs atvinnu og tóku þá ákvörðun að láta smíða fyrir sig bát í Póllandi sem hægt væri að gera út allt árið eða þar um bil. Báturinn kom svo til landsins í ársbyrjun 1990 og hlaut nafnið Pétur Konn og einkennisstafina SH 36. ( Ljósmynd ) Reru nú bræðurnir saman á Pétri Konn á heilsárs vísu og réðu til sín mann sem mældi göturnar og engum leist á að ráða í vinnu til að róa á Má.  Reyndist það sá mesti happadráttur sem hugsast gat, því séu til einhver sérstök trillukarla gen, þá er umræddur Hörður Jónsson stútfullur af þeim. Reri hann stíft bæði á línu og handfærum ýmist einn eða með Ómari elsta syni Ella og gáfu þeir mönnum á nýrri og stærri bátum ekkert eftir hvorki í fiskiríi né sjósókn.

 Veturinn 1989-1990 var sett ný vél í Má og lögðu menn fullir bjartsýni í Grásleppuna það vorið. Þá var það einn daginn að fyrir einskæra óheppni strandaði hann í Lárvík og skemmdist það mikið að betra var að láta smíða nýjan bát heldur en að reyna að lagfæra þennan. Úreldingareglur voru orðnar nokkuð strangar til að reyna að sporna við gríðarlegri útþenslu smábátaflotans og þurftu menn því að kaupa rúmmetra til viðbótar til þess að geta smíðað stærri bát en þann gamla. Árið 1991 Var svo hleypt af stokkunum nýjum Má SH 71 hjá Trefjum í Hafnarfirði. Var það trefjaplastbátur af gerðinni Skel 80 Með 74 ha Janmar vél. ( Ljósmynd )

  Þegar hér er komið sögu eru banndagar orðnir það margir í því banndagakerfi sem þá var við lýði að menn sáu sér hag í því að kaupa bát í aflamarkskerfinu sem mátti róa á til dæmis í desember, janúar og þrjá daga aðra hvora helgi þegar krókabátar urðu að vera í landi.  Tvistur SH 152 var keyptur vorið 1992 í þessum tilgangi. ( Ljósmynd ).

  Árið 1994 sökk Pétur Konn skammt undan landi við Hnausavitann undir Kirkjufelli eftir að Gaui hafði keyrt á fullri siglingu á Melrakkaey. Var honum náð upp og var í viðgerð seinnihluta 94 og fyrrihluta 95 og frá veiðum þar af leiðandi á mikilvægu tímabili á árum þeim sem voru til viðmiðunar þegar kvóti var settur á krókabáta (svokallaður krókakvóti). Varð það til þess að Gaui vildi velja dagakerfið áfram þegar velja átti á milli þess að láta skjóta þá eða hengja. Því skerðingin var það gífurleg að bátar máttu ekki veiða nema rúmlega helming af því magni sem þeir veiddu árið áður. En sem betur fer var vitinu komið fyrir Gaua af hinum tveimur, og af tvennu illu var kvótinn valinn, þar sem vitað var um fjöldan allann af mjög öflugum bátum sem voru í smíðum í staðinn fyrir úrelta báta sem ekkert höfðu verið að veiða undanfarin ár. Nauðsynlegt reyndist að fækka í áhöfn og fara að róa einir á hvorum bát og dugði ekki einusinni til. Reyndu þeir bræður fyrir sér á haukalóð í tvo mánuði fyrsta árið til að ná endum saman í að hafa þetta sem heils árs vinnu. Ómar var fluttur til Ástralíu, en segja þurfti Herði upp og var mikil eftirsjá í honum. Hann reyndar keypti sér bát í þessu sama kerfi og mátti ekki seinni vera, þar sem þetta var allt saman að lokast fyrir nýliðum. Á hann nú og gerir út Millu SH 234.

Fljótlega gerðist mjög aðkallandi að breyta ýmsu og betrumbæta og var það fyrstur Tvistur 1995 sem fór í klössun hjá Stykki ehf í stykkishólmi og sett á hann pera, flaps og slynkubretti.

Svo aftur í lengingu hjá Knörr hf á Akranesi 1996, Vélaskipti hjá Vélaþjónustu Þorgríms frænda 1997 og samtímis breytingar á stýrishúsi hjá Stykki ehf. (Ljósmynd)

Á þessum árum var farið að fiskast mjög vel, og ekki óalgengt að koma þurfti að landi með mikið af fiski lausum og fór það ekki sérlega vel með, hvorki mannskap né fisk. Fóru því báðir krókabátarnir í breytingu árið 1998, fyrst Már og síðan Pétur Konn og aftur lenti þetta á viðmiðunarárum, nú þegar kvótasetja átti ýsu. Voru þeir báðir hannaðir með það í huga að hægt væri að ganga frá sem mestu af aflanum beint í stóru markaðskörin um borð (mynd) í bátunum þannig að ekki þyrfti annað en að hífa þau upp á bryggju og þaðan beint á markað og önnur tóm um borð. Eftir þessa breytingu litu þeir út eins og á myndinni efst á þessari síðu. Forsendurnar fyrir því að reka Tvistinn voru breyttar, og var hann orðinn hálfgerður baggi á rekstrinum. Seldur var sá litli kvóti sem á honum var og ætlunin að kaupa inn fleiri tonn í krókakerfinu. Var báturinn síðan lánaður Eyþóri frænda þegar hann var orðinn leiður á togaralífinu og síðan seldur honum þegar hann hafði fengið að prófa í nokkra mánuði.

Ásíðustu fjórum árum hefur Ægir verið í skóla á vetrum og róið eingöngu á sumrin og um helgar og hefur því kvótinn dugað mjög ríflega síðustu árin, sérstaklega þegar bætt hafði verið við úthlutun árlega þar til síðustu tvö árin sem niðurskurður hefur verið, fyrst um 20% og síðan um 15%. Nú eru báðir bátarnir reknir á heils árs grundvelli og því útlit fyrir að snemma verði farið í sumarfrí.

Þetta er í stórum dráttum saga útgerðarinnar, en fyrirtækið Pétur Konn ehf sem stofnað var um reksturinn var eins og áður sagði stofnað í apríl 1997 og selt byrjun rs 2006.

Til baka forsu.